Lög Leikfélags Húsavíkur

1. grein

Félagið heitir Leikfélag Húsavíkur.


2. grein

Tilgangur félagsins er að efla og iðka leiklist á Húsavík.


3. grein

Tilgangi félagsins hyggst félagið ná m.a. með því að;

a) Æfa og sýna leikrit

b) Standa fyrir námskeiðum og/eða hvetja félagsmenn til að sækja námskeið.

c) Vera aðili að samtökum og samstarfi áhugafólks um leiklist bæði innanlands og utan. Félagið er aðili að BÍL, Bandalagi íslenskra leikfélaga.

d) Vera vettvangur fyrir hvers konar hópavinnu félagsmanna um leiklist. Frumkvæði til að æfa leikrit eða kvöldvöku (hópvinnu) getur komið frá einstökum félögum einum eða fleiri í samráði við stjórn þess. Hópurinn skal hafa aðgang að munum félagsins í góðu samkomulagi við aðra sem starfa á sama tíma. Gæta skal þess að fara vel með munina.


4. grein

Inntökubeiðni skal berast stjórninni munnlega eða skriflega fyrir eða á aðalfundi. Inngöngu getur hver sá fengið sem orðinn er 16 ára og hlýtur samþykki meirihluta aðalfundar manna. Þó skal enginn gangast undir skuldbindingar er greinir í lögum félagsins fyrr en fjárráða. Félagar greiða árgjald, sem aðalfundur ákveður hverju sinni, á hverju leikári. Félagar 65 ára og eldri eru undanþegnir árgjalda greiðslu og ábyrgð á skuldum félagsins (sbr. 8. gr.). Úrsögn komi munnlega eða skriflega á aðalfundi.


5. grein

Aðalfundur fer með æðsta vald í félaginu. Hann skal haldinn í september ár hvert. Aukafundi skal halda svo oft sem þurfa þykir og ef 10 félagsmenn óskja þess skriflega. Afl atkvæða ræður úrslitum mála á fundinum.

Dagskrá aðalfundar:

1) Kosning fundarstjóra og fundarritara.

2) Inntaka nýrra félaga.

3) Skýrsla stjórnar.

4) Reikningar lagðir fram.

5) Afgreiðsla tillagna sem borist hafa fundinum s.s. lagabreytingar.

6) Starfsemi næsta leikárs.

7) Kosning formanns, stjórnar, varastjórnar, skoðunarmanns reikninga og annan til vara.

8) Önnur mál.

Aðalfund skal auglýsa opinberlega með fimm daga fyrirvara og með tölvupósti til skráðra félaga sem hafa gefið þær upplýsingar til félagsins. 


6. grein


Stjórn Leikfélags Húsavíkur skipa fimm einstaklingar. Á aðalfundi skal kjósa formann og tvo einstaklinga í stjórn. Formaður skal kosinn sérstaklega til eins árs í senn. Tveir einstaklingar skulu kosnir á aðalfundi til tveggja ára í senn. Stjórn skiptir með sér verkum, varaformanns, gjaldkera, ritara og meðstjórnanda. Kjósa skal þrjá menn í varastjórn til eins árs í senn. Félagsmenn eru skyldir til að taka kosningu í stjórn.


7. grein

Stjórnin fer með framkvæmdastjórn í félaginu á milli aðalfunda. Skal hún kveða sér til aðstoðar aðra félaga eftir ástæðum hverju sinni. Stjórnin skal færa reikninga félagsins og leggja þá endurskoðaða fyrir aðalfund. Reikningsárið er leikárið frá 1. september til 31. ágúst. Stjórninni er skylt að vátryggja áhöld og muni félagsins og hafa eftirlit með þeim.



8. grein

Fé því sem félagið kemst yfir með starfsemi sinni eða eignast á annan hátt skal varið til greiðslu skulda félagsins og kostnaðar við starfsemi þess. Félagsmenn bera ábyrgð á skuldum félagsins umfram þær eignir þó skal ábyrgð hvers og eins aldrei vera hærri en sem svarar fimmföldu félagsgjaldi (sjá þó 4. gr.).

Verði ágóði af starfsemi félagsins skal hann mynda sjóð til eflingar starfsemi félagsins. Sjóðurinn skal ávaxtaður í viðurkenndri bankastofnun.

Félagsfundur getur samþykkt að ráðstafa sjóðum félagsins á annan hátt þó er stjórn heimilt í sérstökum afmörkuðum tilfellum að ráðstafa allt að 1/5 hluta af peningaeign félagsins.


9. grein

Nú tekur félagið á leigu eða til rekstrar húsnæði til starfsemi sinnar skal ákvörðun um það tekin á félagsfundi enda séu ¾ hlutar fundarmanna samþykkir.


10. grein

Ákveði aðalfundur félagaslit Leikfélags Húsavíkur skulu eignir þess afhentar sveitarstjórn á Húsavík hverju sinni til varðveislu uns annað leikfélag með sambærileg markmið og L.H. verður myndað og skal það erfa eignirnar.


11. grein

Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi og séu ¾ hlutar fundarmanna með breytingunni. Lagabreytinga skal getið í fundarboði.


12. grein

Lög þessi öðlast gildi þegar aðalfundur hefur samþykkt þau enda eldri lög úr gildi fallin.


Lög þessi voru samþykkt á aðalfundi 26. október 2024.